Nýlega voru samningar undirritaðir af fulltrúum Leynis og Akraneskaupstaðar um nýja frístundamiðstöð við Garðavöll.
Ný frístundamiðstöð mun án efa gjörbreyta öllu starfi Leynis á komandi árum. Stærð húsnæðis er um 1000m2 og skiptist í rúmlega 300m2 kjallara með inniæfingaaðstöðu og 700m2 jarðhæð með allt að 200 sæta veislusal, búningsaðstöðu, skrifstofum, fundarherbergi og afgreiðslu.
Húsnæðið mun nýtast Leyni allt árið um kring og einnig munu aðildarfélög ÍA og Akraneskaupstaður geta nýtt húsnæðið í samráði við Leyni.
Síðastliðna mánuði hefur verið unnið að verkfræðihönnun og öðru er snýr að hönnun hússins. Útboð hafa nú þegar farið fram á jarðvinnu og forsteyptu burðarvirki hússins og komu ágætis tilboð í þessa verkþætti. Á næstu dögum verður frágangur utan- og innanhús boðin út eftir fagsviðum og er gert ráð fyrir að þegar tilboð liggja fyrir um eða eftir miðjan október verði fljótlega teknar ákvarðanir með frekari framgang á framkvæmd frístundamiðstöðvarinnar.
Tímaáætlanir á framkvæmdinni hafa lítillega breyst frá upphaflegum áætlunum og er nú gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir í nóvember/desember 2017 að öllu óbreyttu.
Frekari upplýsingar um framkvæmdina og verkefnið gefur framkvæmdastjóri Leynis ef óskað er eftir.