Garðavöllur

Garðar

Par 4 – Forgjafarröð 15

Tilfinningin sem kylfingar eiga að fá á fyrsta teig er að þeir séu velkomnir á völlinn, og framundan er braut sem er ekki mjög erfið en býður þeim upp í dans sem það vilja. Fyrir flesta dugir að taka 4 til 5 járn af teig og þeir þurfa ekki nema 9-járn í mesta lagi til þess að komast inn á flörina sem er ekki mjög vel varin af sandglompum. Það þarf mjög slæmt högg til þess að klúðra málunum á þessari braut. Hinsvegar á eftir að lengja þessa braut töluvert í nánustu framtíð en í dag eiga fremstu kylfingar landsins ekki í erfiðleikum með þessa.

Rjóður

Par 4 – Forgjafarröð 5

Ég hef heyrt það frá kylfingum sem leikið hafa Garðavöll af hvítum teigum að þeir telji að þetta sé eitt erfiðasta upphafshöggið sem þeir slái hverju sinni. Þriðja brautin á korpu er ekki ósvipuð og þessi braut. Það er hægt að slá útaf báðu megin við brautina, það er allt í voða og ekkert má út af bregða. Flestir taka 3-járn af teig, brautin er ekki nema 300 metrar, getur boðið upp á fugl ef vel tekst til og nánasta umhverfið spyllir ekki fyrir. Ég er mjög stoltur af þessarari holu og tel hana mjög fallega.

 

Skrúður

Par 3- Forgjafarröð 7

Það er undarleg tilfinning fyrir flesta að ganga í gegnum skóg á leið sinni á 3. teig. Og brautin er ekki nema um 140m af hvítum teigum. Það eru samt sem áður margar hindranir framundan, vatn, sandglompur, vallarmörk vinstra megin og síðan eru myndarleg tré hægra megin við flötina. Að auki er oft skjól á teignum sem glepur kylfingi sem slá beint á stöngina en gleyma að gera ráð fyrir vindinum sem er oft nokkuð sterkur fyrir ofan skóginn. 

Flenna

Par 5 – Forgjafarröð 3

Hér taka flestir upp dræverinn í fyrsta sinn á vellinum. Það er mjög mikið svæði til þess að vinna með framundan. Að vísu er styttra í vallarmörkin á vinstri hönd en margur heldur og það er einnig til í dæminu að menn slái út útaf hægra megin við brautina, þar er einnig hliðarvatnstorfæra. Flötin er varin af vatnstorfæru fyrir framan og skurður til hliðar.  Að auki eru glompur fyrir aftan flötina sem taka við of löngum höggum.  Athugið að myndbandið hér að neðan er af eldri flöt, ný flöt liggur vinstramegin við eldri flöt.

 

Sauðaból

Par 4 – Forgjafarröð 11

Að mínu mati er þetta lúmsk hola og oftar en ekki er slegið upp í vindinn af teignum. Flestir eiga um 160m högg eftir upphafshöggið en það eru mjög margir sem hitta ekki flötina. Þrátt fyrir að þetta sé ein stærsta flöt vallarins. Það er gríðarlega mikið brot í flötinni, tvær sandglompur beggja vegna við flötina. Ef menn hitta ekki flötina þa eiga þeir mjög erfið högg eftir, það er strembið að koma boltanum nálægt holunni rétt utan við flötina.

Dýkið

Par 4 – Forgjafarröð 13

Á þessum teig standa kylfingarnir frammi fyrir því að velja rétt verkfæri í upphafshöggið. Það eru ekki nema rétt um 230 metrar inná flötina en svæðið sem þeir hafa til að vinna með er takmarkað. Flestir nota járnkylfu af teig, eiga þá ekki nema um 80-100 metra högg eftir og leika inná flötina af brautinni líkt og um par 3 holu væri að ræða.
Vindurinn leikur stórt hlutverk á þessari braut og þrátt fyrir að vegalengdin sé ekki mikil þá er þetta krefjandi hola.
Flötin er ekkert lamb að leika sér við, sem er ekki mjög breið en nokkuð löng, það eru þrír pallar á henni.

Flóinn

Par 5 – Forgjafarröð 1

Til að komast frá sjöttu flöt að áttunda teig þarf að spila krefjandi par 5 braut þar sem vegalengdin er tæpir
600 metrar af öftustu teigum. Í rauninni er þetta hola sem allir þurfa að slá a.m.k. þrjú högg til þess að komast inn á flötina.
Að auki er hægt að vera með mjög fjölbreytilegar holustaðsetningar á flötinni sem er stór.

Krossholt

Par 3 – Forgjafarröð 17

182 metrar af öftustu tegum.  Flötin er frekar þröng og varin af glompum beggja vegna.  Ansi margir boltar enda í glompunum og þá er erfitt að ná pari.  Sagan segir að  Birgir Leifur slái alltaf að gríni, vippi að og tryggi parið til þess að forðast glompurnar.

 

Stremba

Par 4 – Forgjafarröð 9

Eftir að nýr teigur var settur upp á 9. braut breytti það miklu fyrir upphafshöggið. Hún er einfaldlega löng par fjórir, það eru vallarmörk á hægri hönd frá upphafi til enda. Flötin er einnig erfið, það er stór hóll á flötinni sem hrindir frá sér. Að mínu mati eru þrjár síðustu holurnar á fyrri níu allt mjög erfiðar holur sem við gætum kallað 5 ½, 3 ½ og 4 ½ holur en mótvægið er í fyrri hluta vallarins sem getur á góðum degi gefið marga fugla af sér.

Pyttir

Par 4 – Forgjafarröð 18

Þessi stutta hola er í raun hugsuð sem spegilmynd af 6. holu. Hindranirnar eru flestar á vinstri hönd, þrír pollar, sem margir lenda í ef þeir reyna að slá inna flötina. Það eru sandglompur á brautinni hægra megin og við flötina eru einnig þrjár sandglompur. Flötin er tvöföld og deilir svæðinu með þeirri tólftu. Þett er lítil budda eins og sagt er. Það hefur verið tekinn í notkun nýr teigur fyrir meistaraflokk á 10. braut þar sem að lega brautarinnar hefur breyst töluvert. Flötin er mun opnari en áður en vegalengdin er sú sama. En ég veit að flestir eru ósáttir við par á þessari braut sem á að gefa af sér fugl

Kúfhóll

Par 4 – Forgjafarröð 4

Það eru sandglompur á brautinni sem eru í leik fyrir flesta kylfinga. Það eru ekki margar aðrar hættur í upphafshögginu en flötin er vel varin af sandglompum. Flestir ná pari á Kúfhól, ekki mikið um skolla eða fugla enda er ekki mikið um aðrar hindranir en sandglompur. 

Garðasel

Par 4 – Forgjafarröð 8

Þessi braut á að gefa flest pör af sér á vellinum ef vindáttin er norðlæg eða ef það er logn. Sem kemur ótrúlega oft fyrir á Garðavelli. Það eru nokkrar sandglompur á brautinni og kylfingarinir geta valið um að eiga 80 m högg eftir eða 120 m högg. Flestir eru á því að þetta sé léttasta holan á vellinum og ég get alveg verið sammála því. 

 

Leynir

Par 5 – Forgjafarröð 12

Þetta er hola sem gæti gefið af sér örn. Stutt par 5 hola, og fyrir meistaraflokksspilara er þetta hola sem oft gefur af sér fugl, enda eru margir sem nota allt að 8-járn til þess að slá inn á flötina. En það eru samt sem áður margar hættur til staðar, vatnstorfærur beggja vegna við brautina í upphafshögginu og það er hægt að finna úrvalsstaði fyrir holuna á flötinni sem er með þrjár sandglompur í næsta nágrenni við sig. En á góðum degi fá margir fugl á þessari holu.

Stekkur

Par 3 – Forgjafarröð 16

Hér er um að ræða langa par 3 holu þar sem lengdin á upphafshögginu skiptir öllu máli. Karlarnir þurfa að slá um 210 metra og ef það er mótvindur getur það gerst að einhverjir slái með trékylfu af teig. Það fá margir skolla á Stekknum, enda er erfitt að vippa inn á flötinaaf teighöggið heppnast ekki vel. 

Tannaberg

Par 4 – Forgjafarröð 2

Þessi hola er oft vendipunkturinn á hringnum hjá flestum kylfingum. Það má ekki slá boltann til vinstri þar sem að boltinn mun að öllum líkindum týnast. Á hægri hönd er vatnstorfæra og að mínu mati er þessi hola víðsjárverð. Höggið inná flötina er blint ef upphafshöggið nær ekki upp að brautarglompunni á hægri hönd. Þá sjá menn flötina sem er löng en ekki breið. Það er auðveldlega hægt að týna upphafshögginu og það gætu margir misst tvö til þrjú högg við Tannabergið. 

Lönguhálsar

Par 5 – Forgjafarröð 14

Þetta er par 5 hola sem er ekki ósvipuð og sú þrettánda. Hæðarmismunurinn frá teig að flöt glepur marga, og það er erfitt að meta úr fjarlægð hvar holan er staðsett á flötinni. Að auki er flötin hönnuð með þeim hætti að margir boltar eiga eftir að leka útaf til hægri, enda hallar flötin frá er kylfingar slá inná flötina. Ég hef séð marga reyna við flötina í öðru höggi og það er vel hægt að ná í fugl við Lönguhálsa. Þeir högglengstu slá með 6 eða 7-járni inná flötina ef það er norðanátt, lengdin býður uppá að kylfingar geta sótt í sig veðrið á lokasprettinum enda eru þrjár síðustu holur vallarins byggðar upp með þeim hætti að þar er hægt að rétta úr kútnum ef svo ber undir. Ég vona alltaf aðeinhver nái erni og tveimur fuglum í kjölfarið á lokaholnum þremur. 

Fagrabrekka

Par 5 – Forgjafarröð 6

Þetta er klárlega ein af fallegri brautum vallarins þar sem útsýnið er mikið og horft yfir völlinn og stutt í að golfhringn-um verði lokað. Torfæra á miðri braut sem þarf að varast í teighöggi. Flötin er varin af glompum vinstra megin.
Hola sem býður upp á par en getur klárlega refsað svo kylfingum.

Grafarholt

Par 3 – Forgjafarröð 10

Erfið lokahola af hvitum teigum, 169 metrar og gjarnan smá gjóla á móti!  Flötin er á 2 pöllum og erfitt pútt eftir ef farið er á ranga pall.  Glompur fyrir framan og hægra megin við flötina og svo klappir vinstramegin og fyrir aftan, hér má ekki vera of langur né stuttur!  Einhverjir kylfingar í Leyni eru svo hrifnir af glompunum að nöfn þeirra hafa fests við glompurnar!