Frá því síðusta frétt af stöðu framkvæmdar var birt hefur heilmikið gerst á framkvæmdasvæði við Garðavöll. 

Reisning og uppsetning á kjallara er öll að taka á sig betri mynd þ.e. uppsetning á kjallaraveggjum er lokið, filigran loftaplötur komnar yfir kjallara og einangrun útveggja lokið.  Fylling og frágangur undir lágbyggingu 1.hæðar er tilbúinn að mestu og verða sökklar 1.hæðar reistir á næstu dögum og í kjölfarið verða veggeiningar 1.hæðar reistar.  Má búast við að kominn verði meiri mynd á bygginguna um næstu mánaðamót ef áætlanir ganga eftir.

Þessa dagana er auk þess unnið við uppsetningu á bráðabirgðaaðstöðu sumarsins 2018 sem verður samansett úr gámaeiningum með veitingasal, afgreiðslu, eldhúsi og salerni.  Stefnt er að opnun á veitingaaðstöðu á sama tíma og formleg opnun á vellinum sem verður auglýst á næstu vikum.

Nú þegar framkvæmdir eru komnar á fullt með tilheyrandi aðkomu vinnuvéla, krana, og stærri vöruflutningabíla eru það tilmæli framkvæmdanefndar Leynis og byggingarstjóra að félagsmenn og aðrir gestir virði að vinnusvæðið er lokað óviðkomandi umferð.  Framkvæmdin hefur eðlilega vakið áhuga félagsmanna og gesta sem koma reglulega á vinnusvæðið án alls öryggisbúnaðs til að fylgjast með.  Vinnusvæðið er girt af og geta félagsmenn og aðrir gestir Garðavallar fylgst með framkvæmdinni fyrir utan vinnugirðinguna.  Á vinnusvæði er krafist öryggisbúnaðar og sýnileika fatnaðar og er hjálmaskylda sömuleiðis innan svæðisins.  Markmið allra sem að verkefninu koma eru að framkvæmdin verði slysa og óhappalaus.