John Garner hefur verið ráðinn golfkennari hjá Golfklúbbnum Leyni á Akranesi tímabilið maí til og með september 2018 og mun hann starfa með Birgi Leif Hafþórssyni íþrótttastjóra Leynis og hafa umsjón með þjálfun barna- og unglinga hjá GL ásamt því að vera golfkennari GL.
John Garner hefur mikla reynslu sem golfkennari og starfaði m.a. sem landsliðsþjálfari Írlands árin 1983-1987, landsliðsþjálfari Íslands árin 1988-1995, og landsliðsþjálfari Wales 1992 og eftir það hefur hann farið víða um heim og kennt við góðan orðstír. John hefur alltaf verið þekktur fyrir kunnáttu sína á stutta spilinu og hefur aðstoðað marga kylfinga með góðum árangri.
Aðspurður segir John Garner að hann hafi fyrst komið árið 1989 til Golfklúbbsins Leynis sem landsliðsþjálfari og hitt efnilega unglinga klúbbsins. „Ég vissi það ekki þá að síðar meir yrðu tveir af þessum unglingum Íslandsmeistarar þ.e. Þórður Emil Ólafsson núverandi formaður Leynis og Birgir Leifur Hafþórsson núverandi íþróttastjóri Leynis og atvinnumaður í golfi. Fyrir mér er þetta eins og að koma heim og ég hlakka til að vera hluti af flottum hópi Leynis og kenna unglingum og félagsmönnum að verða betri kylfingar og njóta golfleiksins“.
Stjórn GL bindur miklar vonir við störf John Garner og býður hann velkominn til starfa.