Aðalfundur Golfklúbbsins Leynis árið 2019 var haldinn í Frístundamiðstöðinni á Garðavelli þriðjudaginn 10. desember 2019, kl.19:30.
Þórður Emil Ólafsson formaður fór yfir skýrslu ogstarf klúbbsins ásamt reikningum klúbbsins fyrir árið 2019 og framkvæmdastjóri kynnti fjárhags- og rekstraráætlun ársins 2020.
Í skýrslu stjórnar kom fram að árið var viðburðaríktog stóð þar hæst vígsla nýrrar Frístundamiðstöðvar. Veðurfar var sömuleiðis afar gott og hafði mjög góð áhrif á rekstur og starfsemi klúbbsins. Garðavöllur skartaði sýnu fegursta og var umtalað í hversu góðu ástandi völlurinn var.
Áframhaldandi fjölgun var í hópi félagsmanna sem er mikið ánægjuefni en félagsmenn telja 500 manns sem er mesti fjöldi klúbbsins frá stofnun hans. Spiluðum hringjum fjölgaði milli ára en spilaðir voru tæplega 22.000 hringir samanborið við rúmlega 14.000 hringi árið 2018.
Eftir leiðinda golfsumar og niðursveiflu sumarið 2018 var sett upp 5 ára rekstraráætlun sem stjórn hefur unnið eftir og var mikill viðsnúningur í rekstri klúbbsins. Rekstrartekjur á árinu voru tæplega 112 milljónir samanborið við tæplega79 milljónir árið 2018. Rekstrargjöld voru rúmar 96 milljónir samanborið við tæpar 88 milljónir árið 2018. Rekstrarafkoma var jákvæð um rúmar 15 mkr.
Í áætlunum fyrir rekstrartekjur er gert ráð fyrir að félagsgjöld hækki um 5% og aukin sókn verði í aðrar tekjur s.s. framlög ogstyrki og aðrar þær tekjur sem hægt er að búa til á vellinum. Að sama skapi gera áætlanir rekstrargjalda ráð fyrir almennu aðhaldi á völdum stöðum í rekstrinum. Hækkun á félagsgjöldum var lögð fyrir fundinn til samþykktar og fékk samþykki. Gjaldskrá verður birt innan skamms á heimasíðu Leynis þegar innheimta árgjalda hefst.
Mikil endurnýjun varð á stjórn Leynis en úr stjórn gengu Þórður Emil Ólafsson formaður, Ingibjörg Stefánsdóttir ritari, Eiríkur Jónsson meðstjórnandi og Berglind Helga Jóhannsdóttir varamaður. Ný stjórn var kjörin og var Oddur Pétur Ottesen kjörin formaður og með honum kemur nýtt fólk inn í stjórn þ.e. Ella María Gunnarsdóttir, Óli B. Jónsson og Hróðmar Halldórsson. Fyrir í stjórn sátu Hörður Kári Jóhannesson og Heimir Bergmann.
Viðurkenningar voru að venju veittar. Guðmundar og Óðinsbikarinn, var veittur Guðna Erni Jónssyni fyrir góðan stuðning við barna og unglingastarf klúbbsins undanfarin ár.
Valdimar Ólafsson fékk háttvísisverðlaun GSÍ en þau eru veitt ár hvert þeim kylfingi sem endurspeglar hvað mest þá eiginleika sem Leynir vill sjá í afreksefna unglingum sínum.
Guðmundur Claxton fékk viðurkenningu fyrir mestu forgjafarlækkun hjá Leyni en Guðmundur lækkaði úr 54,0 í 18.2 á árinu 2019.
Guðmundur Sigurjónsson fékk viðurkenningu fyrir flesta spilaða hringi á árinu 2019 en þeir töldu 114 frá opnun vallar til lokunar nú í haust.
Styrktarsamningur var undirritaður við afrekskylfinginn Björn Viktor Viktorsson sem í haust var valinn í afrekshóp GSÍ. Björn Viktor er einn af mörgum unglingum sem æfa og spila golf fyrir Leyni og hefur náð góðum árangri undanfarin ár og misseri.
Guðmundur Sigvaldason framkvæmdastjóri fór stuttlega yfir endanlegan framkvæmdakostnað og annað varðandi nýja Frístundamiðstöð. Í máli hans kom fram að verkið stóðst áætlanir bæði varðandi tíma og kostnað og að vel hefði tekist til öllum atriðum. Myndband var frumsýnt frá framkvæmdatíma verkefnisins sem Kristinn Gauti Gunnarsson hafði veg og vanda af að gera.
Nafn á Frístundamiðstöðina var opinberað en nú í haust fór fram samkeppni um nafn og gátu bæjarbúar og aðrir sent inn tillögur. Fyrir valinu var nafnið Garðavellir en tillöguna átti Ólafur Grétar Ólafsson félagsmaður í Leyni.
Þórður Emil Ólafsson þakkaði fráfarandi stjórn og framkvæmdastjóra fyrir góð störf fyrir GL.
Guðmundur Sigvaldason framkvæmdastjóri mun láta af störfum mánaðamótin janúar/febrúar 2020 og tók hann til máls og fór stuttlega yfir 7 ár í starfi framkvæmdastjóra.
Aðalfundur hófst kl. 19:30 og mættu um 40 félagsmenn og gestir. Fundi var lokið um kl. 21:20.