Kæru félagsmenn,

Þrátt fyrir smá kuldakast síðustu daga og einhverjar auknar takmarkanir í stuttan tíma þá er bjart framundan fyrir okkur golfara og styttist í að vellirnir opni og fjörið hefjist. Stór hluti af golfsumrinu ár hvert er mótahald klúbbsins.

Í vetur tók ný mótanefnd til starfa en hana skipa nú Hafsteinn Gunnarsson, Búi Örlygsson, Emil Sævarsson, Magnús D. Brandsson, Óli B. Jónsson, Þóranna Halldórsdóttir, Þórður Elíasson og með nefndinni starfar Rakel Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Leynis.

Það er oft sagt að mótahald sé með hefðbundnu sniði og það á svo sem við í ár, en ætlunin er hins vegar að bæta í er kemur að umgjörð móta, bæði hvað varðar ræsingu og verðlaun en einnig félagsstarf tengt mótum. Árshátíð Leynis verður haldin þann 18. september í tengslum við Vatnsmótið, sem í ár verður blanda af einstaklings, hjóna og para keppni. Ekki má gleyma Opna hjóna og para mótinu sem er gríðarlega vinsælt og líkur með kvöldverði og verðlaunaafhendingu að móti loknu.

Fyrsta mótið er sett á þann 1. maí og er það í ár Opna Norðurálsmótið, en gengið var frá styrktarsamningi við Norðurál fyrr í vetur. Við látum okkur auðvitað dreyma um að veðrið verði okkur hliðhollt á næstu vikum og ef hlutirnir þróast þannig að við getum byrjað fyrr þá munum við færa það mót framar.

Tvö GSÍ mót fara fram á Garðavelli í sumar. Dagana 21.-23. maí verður leikið á GSÍ mótaröðinni og 23.-25. júní fer fram Íslandsmót golfklúbba 18 ára og yngri.

Meistaramót Leynis mun fara fram vikuna 5.-10. júlí. Ef þátttakan verður eins góð og í fyrra, sem við svo sannarlega vonum, mun nefndin endurskoða fyrirkomulagið.

Við munum halda áfram með miðvikudags mótaraðirnar sem og Blikksmiðjumótaröðina sem vakti mikla lukku á síðasta ári og voru þátttakendur sammála um að þessi mótaröð tengi félagsmenn sérstaklega vel saman og skapi frábæra stemningu, bæði á golfvellinum sem og á 19. holunni að leik loknum.  Við viljum hvetja alla til að vera með í þessu frábæra móti í ár.

Undanfarin ár hefur verið nokkuð um að vellinum hafi verið lokað, sérstaklega á vorin og haustin, vegna útleigu til hópa og fyrirtækja þar sem kylfingar eru allir ræstir út á saman tíma. Í ár er ætlunin að breyta aðeins um takt í þessu og stefnt er á að fækka útleigu með slíku fyrirkomulagi og þannig almennri lokun á vellinum.

Eins og fram kom hér að ofan hefur mótahald verið með nokkuð hefðbundnu sniði til margra ára. Margir klúbbar hafa verið að endurskoða fyrirkomulag móta í tengslum við fjölgun iðkenda á öllum stigum og breytinga á spilavenju fólks. Á þessu ári ætlum við því að fara í almenna endurskoðun á mótahaldi í samstarfi við félagsmenn, með það að markmiði að auka ánægju félagsmanna á golfiðkun og skapa gott jafnvægi milli móta, vallarútleigu fyrir hópa og sölu á vallargjaldi.

Nú er verið að vinna í að koma öllum mótum upp á Golfboxinu og opnað verður fyrir skráningu á næstu dögum og því ekkert til fyrirstöðu að skipuleggja sumarið.

Hér má sjá Mótaskrá 2021.

Fyrir hönd mótanefnd Leynis,
Hafsteinn Gunnarsson, formaður.