Framkvæmdir gengu ágætlega í maí og það sem af er júní þrátt fyrir leiðindaveður af og til en fyrstu daga maí mánaðar gekk á með dimmum éljum og snjókomu, og nú í júní hefur rignt mikið með tilheyrandi töfum vegna steypuvinnu.

Uppsetning allra veggeininga er nú lokið og sömuleiðis hafa gólfplötur verið steyptar og vinna er hafinn við uppsetningu á þakvirki.  Límtrésbitar eru komnir á sinn stað og innan skamms verða yleiningar settar á þakið og byggingunni lokað. 

Ísetning glugga hefst á næstu dögum og verður lögð áhersla á að loka lágbyggingu en gert er ráð fyrir að vinna innandyra geti hafist um mánaðamótin júní/júlí vegna 1.áfanga sem telur til innganga, afgreiðslu, skrifstofu, fundarherbergis og útisalerna.

Jarðvinna ýmiskonar og lagnavinna s.s. dren-, regnvatns- og fráveitulagnir er unnið við jafnt og þétt samhliða öðrum verkum og gengur vinna vel.

Framkvæmdanefnd vill biðja félagsmenn að taka tillit til vinnu verktaka og keyrslu stærri bíla og tækja að vinnusvæði en hluti bílastæðis hefur verið nýttur fyrir þakvirki og annað efni vegna verksins.

Einnig vill framkvæmdanefnd minna félagsmenn á að bráðabirgða bílastæði eru við aðkomuna á Garðavöll til að fullnægja bílastæða þörf gesta sem heimsækja Garðavöll á annasömum dögum.