Nú líður að vori og styttist í að golfvertíðin hefjist. Garðavöllur kemur vel undan vetri þó svo að líðandi vetur hafi verið nokkuð harðari en undanfarin ár með langvarandi frostaköflum. Nokkuð frost er ennþá í jörðu þrátt fyrir að efstu 5-10 cm jarðvegsins séu orðnir frostlausir. Grassvörðurinn er mjúkur og viðkvæmur á þessum tíma á meðan hann er að þorna og hjaðna eftir frostlyftingu vetrarsins.
Það er því full þörf á að hvetja félagsmenn Leynis til að ganga sérstaklega vel um golfvöllinn á þessum ártíma. Því miður eru brögð af því að ekki sé gengið frá torfusnepplum í kylfuför og einhverjir golfarar hafi freystast til að slá inn á sumarflatir, sem eru þó afgirtar og lokaðar – frekar dapurlegt þegar kylfingar láta sér ekki segjast.
Golfbrautir 10. – 18. eru opnar fyrir golfleik eins og verið hefur í vetur. Leikið er á pinna sem staðsettur er á braut og teigar eru þar sem gul og rauð teigmerki (eitt merki) eru sett fyrir utan teiga. Allir sumarteigar eru lokaðir og skal ekki slá af þeim.
Félagsmenn hvattir til að hafa eftirfarandi í huga við golfleik fram að opnun Garðavallar:
– Allar sumarflatir eru lokaðar og afgirtar.
– Allir sumarteigar eru lokaðir þó svo þeir séu ekki afgirtir.
– Golfbrautir 1.- 9. eru lokaðar allri umferð.
– Golfbrautir 10.-18. eru opnar fyrir vetrargolf.
– Kylfingar eru hvattir til að leika boltanum utan brautar eða af tíi.
– Mjög brýnt er að torfusnepplar séu settir vandlega í kylfuför og stignir niður.
Brynjar Sæmundsson
Vallarstjóri