Þessa dagana ganga framkvæmdir við nýja frístundamiðstöð vel og hjálpar gott veðurfar. Reisning á kjallaraveggjum hófst í dag 8.mars hjá BM Vallá og Sjamma.

Annars var tíðarfarið í febrúar ekki hliðholt framkvæmdum utandyra þar sem mikil snjókoma stóð linnulaust yfir og framkvæmdir á verkstað lágu niðri fyrstu tvær vikurnar í febrúar eftir kraftmikla undirbúningsvinnu í desember, og niðurrif, uppgröft og jarðvinnu í janúar.

Framkvæmdanefnd lauk undirskrift samninga í febrúar við verktaka og eru nú allir samningar frágengnir um stærstu verkþætti verkefnisins. Samræming á verkfræðihönnun hélt einnig áfram ásamt öðru er snýr að þeim verkþætti.

Framleiðsla eininga vegna kjallaraveggja hófst þann 12. febrúar í einingaverksmiðju BM Vallá og stóð yfir fram eftir febrúarmánuði svo tryggt væri að einingar væru tilbúnar þegar vinna á verkstað hæfist að nýju og veður slottaði.

Vinna hófst að nýju á verkstað þann 16. febrúar og höfðu þá framkvæmdir legið niðri á verkstað í tvær vikur. Hreinsa þurfti mikinn sjó úr grunni svo vinna gæti hafist að nýju. Drenlagnir og frágangur fyllingar í grunn var klárað í lok febrúar.

Verkþættir sem framundan eru nú í mars er m.a. vinna við reisningu á kjallaraveggjum, steypa á botnplötu og reisning á filigran loftaplötum. Einnig er gert ráð fyrir að unnið verði við fyllingu með kjallaraveggjum og reisningu á sökkulveggjum fyrir lágreistari hluta byggingarinnar.