Rakel Óskarsdóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hjá Golfklúbbnum Leyni, GL. Rakel tekur við starfinu af Guðmundi Sigvaldasyni sem hefur verið framkvæmdastjóri síðastliðinn 7 ár. Samkomulag milli Rakelar og GL var handsalað á Nýársdag  og mun Rakel hefja störf hjá klúbbnum nú í janúar.

Rakel Óskarsdóttir er útskrifaður viðskiptafræðingur frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og með meistarapróf í markaðs- og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands. Hún hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hefur m.a. starfað sem markaðs- og atvinnufulltrúi Akraneskaupstaðar í nokkur ár og nú síðast starfað við verslunarrekstur ásamt tengdaforeldrum sínum í Versluninni Bjarg á Akranesi. Rakel hefur verið virk í bæjarmálum á Akranesi undanfarin ár og hefur sitið í bæjarstjórn frá árinu 2014. Samhliða bæjarmálunum hefur Rakel tekið að sér ýmis verkefni og stjórnarsetu.  Til að mynda hefur hún setið í stjórn Byggðastofnunar, Orkuveitu Reykjavíkur, formaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi og situr nú í stjórn Samtaka sveitarfélaga á Íslandi svo eitthvað sé nefnt. Rakel Óskarsdóttir er 43 ára gift Búa Örlygssyni og eiga þau tvö börn.

„Ég er mjög ánægð og stolt með að vera kominn til starfa hjá GL. Starfið leggst mjög vel í mig enda einstaklega spennandi umhverfi að starfa í þar sem golf íþróttin fer ört vaxandi á Íslandi. Ég hlakka til að vinna með öllu því góða og duglega fólki sem stendur að baki klúbbnum og veit að ég tek við góðu búi frá fráfarandi framkvæmdastjóra og stjórn félagsins. Starfinu fylgja spennandi tækifæri og miklar áskoranir. Starfsumhverfi Golfklúbbsins Leynis hefur batnað til muna á síðustu misserum og ekkert því til fyrirstöðu að blása í seglin og gera klúbbinn stærri og völlinn eins og hann getur orðið bestur“,segir Rakel

Við í stjórn Leynis erum mjög ánægð með að hafa fengið Rakel til liðs við okkur. Þar er á ferð metnaðarfullur einstaklingur með góðan bakgrunn sem án efa mun nýtast klúbbnum vel við að takast á við þær áskoranir sem fyrir liggja á komandi misserum.  Er það stefna okkar að byggja áfram upp góðan golfklúbb og framúrskarandi golfvöll,”segir Pétur Ottesen, formaður Leynis. „Á umliðnum misserum hefur verið unnið þróttmikið og metnaðarfullt uppbyggingarstarf og rekstur GL var með ágætum á síðasta ári. Sóknarfærin leynast víða og ég er þess fullviss að þekking og reynsla Rakelar sé gott veganesti til að gera góðan rekstur enn betri“.sagði Pétur að lokum.