Guðmundur Sigvaldason hefur óskað eftir að láta af störfum hjá Golfklúbbnum Leyni sem framkvæmdastjóri og hefur stjórn Leynis orðið við beiðni hans.  

Guðmundur hefur starfað hjá Golfklúbbnum Leyni frá árinu 2013 sem framkvæmdastjóri og leitt öfluga uppbyggingu klúbbsins undanfarin ár en aðstaða klúbbsins hefur tekið miklum breytingum og er öll hin besta hvar sem á er litið og rekstur klúbbsins í góðu jafnvægi.  Guðmundur stýrði meðal annars nú síðast glæsilegri uppbyggingu nýrrar 1000m2 frístundamiðstöðvar og félagsaðstöðu Leynis sem tekinn var í notkun í apríl 2019.

„Tíminn hjá Golfklúbbnum hefur verið afar gefandi og skemmtilegur og hefur verið gaman að vinna fyrir félagsmenn Leynis. Ég er þakklátur öllu því góða starfsfólki og samstarfsfólki sem ég hef unnið með og er stoltur af þeirri uppbyggingu klúbbsins sem átt hefur sér stað á minni vakt“ segir Guðmundur.

Þórður Emil Ólafsson formaður Golfklúbbsins Leynis kann Guðmundi bestu þakkir fyrir störf hans fyrir félagið. „Guðmundur hefur starfað fyrir Golfklúbbinn Leyni í sjö ár og verið lykilmaður í þeirri uppbyggingu og öfluga starfi sem unnið hefur verið hjá Leyni síðastliðin ár. Samstarfið við Guðmund hefur verið gott og hefur reynsla hans og þekking reynst klúbbnum gríðarlega vel á þessum uppbyggingartíma.  Stjórn Leynis kann Guðmundi bestu þakkir fyrir störf hans fyrir klúbbinn og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi“.