Aðalfundur Golfklúbbsins Leynis var haldinn í golfskála klúbbsins þriðjudaginn 12. desember 2017.
Formaður fór yfir skýrslu og starf klúbbsins, gjaldkeri fór yfir reikninga klúbbsins og framkvæmdastjóri kynnti fjárhags- og rekstraráætlun ársins 2018.
Rekstur Leynis var erfiður rekstrarárið 2017 og lækkuðu rekstrartekjur um 10% milli ára og skýrist það helst af minni tekjum af velli sem og lægri framlögum og styrkjum. Rekstrargjöld voru í takt við fyrri ár og áætlanir. Rekstrarafkoma var neikvæð um rúmar 4,3 mkr. og heildartap árins að teknu tilliti til fyrninga og fjármunagjalda var rúmar 10 mkr. Rekstrartekjur voru rúmar 71,5 mkr. og rekstrargjöld tæpar 76 mkr.
Á fundinum kom fram að reksturinn hefði gengið erfiðlega og helgast af færri spiluðum hringjum en samdráttur var um 12% milli ára. Einnig kom fram að forföll hjá fyrirtækjum og hópum hefðu haft töluverð áhrif. Veðurfar hafði einnig eitthvað að segja en það voraði seint og haustaði snemma. Garðavöllur var að öðru leyti í góðu standi allt frá opnun vallar til lokunnar í haust og kylfingar ánægðir með ástand vallar.
Í skýrslu stjórnar kom fram hvað myndarlegt og öflugt félagsstarf er hjá Leyni og hefur sömuleiðis mikil sjálfboðaliðavinna hjálpað til við undanfarin ár að gera góðan klúbb enn betri og eiga félagsmenn miklar þakkir skilið. Félagsmenn í Leyni eru um 490 og fjölgaði milli ára um 12% og þar vóg mest hvað kvenna- og barna og unglingastarfið tók mikinn kipp og fjölgaði í þeim hópum hlutfallslega mest. Spiluðum hringjum fækkaði mikið milli ára en spilaðir voru 16.235 hringir samanborið við 18.400 hringi árið 2016. Fjölbreytt mótahald var að vanda á vegum Leynis í sumar með blöndu af innanfélagsmótum, opnum mótum og GSÍ mótum sem töldu um 57 talsins. Mótasókn minnkaði milli ára en um 2.235 kylfingar sóttu Garðavöll heim samanborið við tæpa 2500 árið 2016. Bjartir og spennandi tímar eru framundan í húsnæðismálum með nýrri frístundamiðstöð þar sem samningar um verkefnið eru í höfn og styttist í að framkvæmdir hefjist.
Í máli framkvæmdastjóra og kynningu á fjárhags- og rekstraráætlun fyrir árið 2018 kom fram að stjórn Leynis hefur skoðað og ígrundað vel stöðu rekstrar og nú þarf að blása í öll segl og snú við taprekstri. Í áætlunum fyrir rekstrartekjur er gert ráð fyrir að félagsgjöld hækki, æfingagjöld verði sett á fyrir börn og unglinga sem og aukin sókn í aðrar tekjur s.s. framlög og styrki og aðrar þær tekjur sem hægt er að búa til á velli. Að sama skapi gera áætlanir rekstrargjalda ráð fyrir almennu aðhaldi og niðurskurði á völdum stöðum í rekstrinum. Hækkun á félagsgjöldum var lög fyrir fundinn til samþykktar og fékk samþykki. Gjaldskrá verður birt innan skamms á heimasíðu Leynis þegar innheimta árgjalda hefst.
Stjórn Leynis var endurkjörin en hana skipa Þórður Emil Ólafsson formaður, Eiríkur Jónsson, Hörður Kári Jóhannesson, Berglind Helgadóttir og Ingibjörg Stefánsdóttir. Heimir Bergmann var kosinn sem nýr varamaður í stjórn. Úr stjórn gekk Hannes Marinó Ellertsson og var honum þakkað fyrir góð stjórnarstörf undanfarin 6 ár.
Viðurkenningar voru að venju veittar. Guðmundar og Óðinsbikarinn, var veittur Valdísi Þóru Jónsdóttur fyrir góðan árangur á árinu en hún átti afbragðsgott tímabil sem atvinnukylfingur. Björn Viktor Viktorsson fékk háttvísisverðlaun GSÍ en þau eru veitt ár hvert þeim kylfingi undir 18 ára aldri sem endurspeglar hvað mest þá eiginleika sem Leynir vill sjá í afreksefnaunglingum sínum. Garðar Axelsson fékk viðurkenningu fyrir mestu forgjafarlækkun hjá Leyni en Garðar lækkaði úr 54,0 í 37,0 á árinu 2017 en Garðar gekk í Leyni á vormánuðum sem nýliði. Guðmundur Sigurjónsson og Jóhannes Karl Engilbertsson fengu viðurkenningu fyrir flesta spilaða hringi á árinu en þeir töldu um 78 frá opnun vallar til lokunnar nú í haust.
Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu mála varðandi húsnæðismál klúbbsins. Í máli hans kom fram að gert er ráð fyrir áfangaskiptu verki þar sem áfangi 1 verður tekin í notkun undir lok sumars 2018. Áfangi 1 tekur til uppsteypu og frágangs á byggingunni að utan sem og 200m2 afgreiðslu og skrifstofuhluta. Áfangi 2 tekur til fullnaðarfrágangs á 500m2 sal, eldhúsi og öðrum stoðrýmum. Áætlaður framkvæmdakostnaður er 303 mkr. án VSK og mun Fasteignafélag Akraness verða eigandi að fullu. Leynir hefur með samningum við Akraneskaupstað tekið að sér að vera umsjónar- og rekstraraðili byggingarinnar frá upphafi verks og einnig þegar hún verður tekin til notkunar.
Farið var yfir skipulag verkefnis og mönnun bygginga- og framkvæmdanefndar en í henni sitja Sigurður Páll Harðarson sviðstjóri skipulags- og umhverfissviðs Akraneskaupstaðar, Alfreð Þór Alfreðsson rekstrarstjóri áhaldahúss Akraneskaupstaðar, Lárus Ársælsson starfsstöðvarstjóri Mannvits og Guðmundur Sigvaldason framkvæmdastjóri Leynis.
Fram kom að vinna við teikningar eru að mestu lokið en aðalhönnuður er Halldór Stefánsson og hefur síðan önnur verkfræðivinna verið í umsjón Mannvits og Alhönnunar. Tilboð eru kominn í alla stærstu og veigamestu verkþætti og gert ráð fyrir að samningar við verktaka klárist í desember 2017. Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdir hefist í byrjun janúar 2018 en í desember 2017 verður unnið við uppsetningu á vinnusvæði, bráðabirgðatengingum og niðurrifi bygginga. Framkvæmdastjóri fór að lokum yfir teikningar af byggingunni og útskýrði fyrir fundargestum og svaraði spurningum.
Viðhorfskönnun GSÍ sem framkvæmd var á haustmánuðum var kynnt sem og viðhorfskönnun GL sem framkvæmd var í nóvember. Áhugaverðar niðurstöður komu fram sem stjórn Leynis mun nýta sér og skoða til að auka gæða rekstursins og starfsins.
Brynjar Sæmundsson framkvæmdastjóri GrasTec sem studdi við haustmótaröð Leynis kvað sér orðs og dró út ferðavinning en nöfn allra keppenda voru í potti sem dregið var úr. Jón Ármann Einarsson var sá heppni en hann hlaut gjafabréf frá GB ferðum.
Aðalfundur hófst kl. 19:30 og var ágætlega sóttur af um 45 félagsmönnum og gestum. Fundi var lokið um kl. 21:30.