Laugardaginn 20. apríl s.l. opnaði Bílaumboðið Askja sölu- og þjónustuumboð á Innnesvegi 1 á Akranesi. Það var mikill heiður fyrir Golfklúbbinn Leyni að fá boð á þann viðburð en við það tækifæri skrifaði Viktor Elvar Viktorsson, rekstrarstjóri Öskju á Vesturlandi, og Rakel Óskarsdóttir framkvæmdastjóri Leynis undir nýjan samstarfssamning til þriggja ára. Vörumerkið Honda hefur til margra ára verið mjög sýnilegt á Garðavelli og með tilkomnum nýjum samningi verður svo áfram en Askja selur og sinnir m.a. þjónustu fyrir Mercedes Benz, Kia, Smart og Honda ásamt því að selja notaða bíla.

Bílaumboðið Askja leggur mikla áherslu á jafnrétti og mun stuðningurinn því ganga jafnt til barna- og unglingastarfs sem og til almenns félagsstarfs Leynis.

Stjórn Leynis fagnar nýjum samstarfssamningi sem byggður er á öflugu og traustu samstarfi til margra ára. Eins færir stjórn Leynis Bílaumboðinu Öskju hamingjuóskir með opnunina á Akranesi.

Á myndinni eru frá vinstri; Óli Björgvin Jónsson varaformaður GL, Viktor Elvar Viktorsson rekstrarstjóri Öskju á Vesturlandi, Rakel Óskarsdóttir framkvæmdastjóri GL, Hróðmar Halldórsson formaður GL og Jón Trausti Ólafsson Framkvæmdastjóri hjá Bílaumboðinu Öskju.