80. ársþing ÍA var haldið hátíðlega á Garðavöllum í gær, 18. apríl. Golfklúbburinn Leynir átti þar þrjá öfluga félagsmenn sem sæmdir voru bandalagsmerki ÍA. Stjórn GL óskar Halldóri B. Hallgrímssyni, Berglingi Helgu Jóhannsdóttur og Oddi Pétri Ottesen innilega til hamingju með nafnbótina og heiðursviðurkenninguna.

Halldór B Hallgrímsson

Halldór B. Hallgrímsson hefur verið dyggur félagsmaður og þátttakandi í Golfklúbbnum Leynir í næstum 30 ár. Halldór hefur í gegnum áratugina komið að mörgum þáttum í starfi GL. Sinnti hann stjórnarmennsku í félaginu á árunum 1995-2002 og svo aftur á árunum 2006-2011, samhliða tengdum verkefnum sem formaður barna- og unglinganefndar og svo síðar sem gjaldkeri GL.

Halldór gegndi einnig algjöru lykilhlutverki sem byggingarstjóri við uppbyggingu vélaskemmu GL á árunum 2011-2014 eða allt til loka framkvæmdar. Vélaskemma GL þykir vera ein sú glæsilegasta sinnar tegundar hérlendis svo eftir er tekið og skapar hún vallarstarfsmönnum GL fyrirtaks aðbúnað og aðstöðu.

Samhliða óeigingjarni stjórnarmennsku í garð félagsins hefur Halldór ávallt verið virkur liðsmaður í þátttöku GL í sveitakeppnum bæði barna og unglinga, fullorðinna sem og eldri kylfinga, þá bæði sem kylfingur og liðsstjóri.

Það er því sannur heiður að Golfklúbburinn Leynir tilnefnir Halldór B. Hallgrímsson til bandalagsmerki Íþróttabandalags Akraness, hann er vel að því kominn.  

Berglind Helga Jóhannsdóttir

Berglind Helga Jóhannsdóttir hefur komið að mörgum þáttum í starfi Golfklúbbsins Leynis og er til margra ára öflugur félagsmaður og sjálfboðaliði. Berglind hefur sinnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir hönd Leynis. Berglind sat meðal annars í stjórn félagsins árin 2014-2019.

Þá hefur Berglind einnig tekið virkan þátt í og stutt vel við öflugt kvennastarf Golfklúbbsins.  Berglind á einnig heiður að því að koma á fót og stýrt Opna Hjóna og Para golfmóti klúbbsins sem haldið er ár hvert í byrjun sumars. Mótið er eitt það vinsælasta í mótahaldi klúbbsins en í það er ávallt uppselt. Það er sannur heiður að Golfklúbburinn Leynir tilnefnir Berglindi Helgu Jóhannsdóttur til bandalagsmerki Íþróttabandalags Akraness, hún er vel að því kominn.

Oddur Pétur Ottesen.

Oddur Pétur Ottesen kom inn af miklum krafti sem nýr formaður í stjórn Golfklúbbsins Leynis árið 2018 og starfaði sem formaður fram til ársloka 2023. Á því tímabili voru áskoranir klúbbsins miklar samhliða vaxandi félagafjölda og auknum umsvifum í rekstri.

Samhliða óeigingjarni sjálfboðavinnu í stjórn félagsins hefur Pétur ávallt verið virkur félagsmaður og ötull sjálfboðaliði hvort sem er úti á Garðavelli eða inni í aðstöðu félagsins á Garðavöllum.

Golfklúbburinn Leynir þakkar Pétri innilega fyrir farsæla formennsku og  hans framlags til klúbbsins og vil með þeim orðum sæma hann til bandalagsmerki Íþróttabandalags Akraness og er hann vel að því kominn.