Stjórn og starfsmenn Golfklúbbsins Leynis færa félagsmönnum og gestum Garðavallar óskir um gleðilegt sumar. O. Pétur Ottesen formaður GL hefur tekið saman stuttan pistil sem hvetur okkur kylfinga áfram inn í golfsumarið.

Kæru félagar.
Við sem héldum að árið 2020 hafi verið fordæmalaust, verðum því miður að magagleypa þær vangaveltur – í bili að minnsta kosti. Ekki var langt liðið frá síðasta sumri þegar veirufjandinn hafði skotið upp kollinum af fullum þunga á ný. Hefur þetta ástand sett okkur miklar takmarkanir í okkar daglega lífi og frelsi til athafna verið mjög rýrt frá síðasta hausti. En þá gerum við það sem Íslendingar gera best þegar á móti blæs, setjum undir okkur hausinn og höldum ótrauð áfram þar til veðrinu slotar.Þegar þetta er skrifað hefur verið létt lítillega á takmörkunum, þó enn séu blikur á lofti. Vonir standa þó til að við getum iðkað golf strax í byrjun maí, væntanlega með svipuðu sniði og þegar við hófum golfsumarið 2020. Flest bendir til að enn verði í gildi takmarkanir með notkun á sameiginlegum búnaði á golfvellinum, s.s. hrífum í glompum.Við fengum gott frí frá takmörkunum yfir hásumarið 2020, sem gerði það að verkum að golfiðkun var bæði útbreidd og almenn á Íslandi – enda afar fáir á faraldsfæti til annarra landa. Þetta létti verulega undir með rekstri GL, aldrei hafa fleiri félagsmenn verið skráðir í klúbbinn og fyrra met í fjölda spilaðra hringja voru slegin svo eftir var tekið.Nokkrar breytingar hafa átt sér stað í rekstrarumhverfinu nú í vetur – ber þar helst að nefna viðamikið samkomulag sem GL gerði við Golfklúbb Mosfellsbæjar nú undir vorið. Hryggjarstykkið í samkomulaginu er aðkoma GM að vallarstjórnun, auk þess geta meðlimir þessara klúbba spilað gagnkvæmt á mjög hóflegu vinavallargjaldi á völlum klúbbanna. Bjóðum við Mosfellinga velkomna til samstarfs, sem vonandi vefur upp á sig og teygir sig meira inn í starfið á komandi árum – möguleikarnir eru miklir.Nýliðun í GL var mikil á síðasta ári. Er það von mín að sú þróun haldi áfram og bind ég miklar vonir við að sjá endurkomu sem flestra af nýliða síðasta árs og viðhalda þannig því þróttmikla og uppbyggilega félagsstarfi sem GL hefur metnað til að standa fyrir. Aukinheldur vonast ég til að sjá sem flesta nýja félaga á komandi sumri.Vonir stóðu til að hægt væri að opna völlinn sem næst sumardeginum fyrsta, þær vonir dofnuðu í kjölfar kuldakasts sem leit dagsins ljós í kringum páska – og enn eru hitatölur það lágar að maíbyrjun er líklegri eins og staðan er í dag. Vinna á vellinum er þó í fullum gangi og hefur vallarnefnd ásamt starfsmönnum GL gengið vasklega fram í undirbúningi og framkvæmdum. Einnig er mótanefnd búinn að stilla upp skipulagi móta fyrir sumarið, svo okkur er fátt að vanbúnaði þegar veðurguðirnir slaka á klónni.Áfram mun þó reyna á aga og jákvætt viðhorf kylfinga í baráttunni við veiruna, þannig mun það verða þar til bólusetning landsmanna verður orðin almennari. Það hvernig við stöndum okkur í persónulegum sóttvörnum og hlýtni við sóttvarnarreglur er lykillinn að því að iðkun geti verði með sem eðlilegustum hætti.Líkt og fyrir ári síðan, vil ég fyrir hönd stjórnar og starfsmanna GL þakka ykkur þann skilning sem þið hafið sýnt breyttum aðstæðum á þessum undarlegu tímum. Tökum fagnandi á móti sumrinu og við hlökkum til að sjá ykkur sem flest í golfi í sumar.
O. Pétur Ottesen