Fréttir af Garðavelli
Ný vallarnefnd GL hefur tekið til starfa. Töluverð endurnýjun var í nefndinni og nefndarmönnum fjölgað. Í nefndinni sitja Kristvin Bjarnason (formaður), Hörður Kári Jóhannesson (stjórnarmaður GL) og Davíð Búason. Nýir nefndarmenn eru Guðjón V. Guðjónsson, Ársæll Kristjánsson, Hannes Marinó Ellertssson, Reynir Sigurbjörnsson og Eiríkur Jónsson. Brynjar Sæmundsson vallarstjóri og Rakel Óskarsdóttir framvæmdastjóri sitja fundi vallarnefndar.
Nefndin hefur tekið við vekefnalista frá fyrri vallarnefnd og er af nógu að taka. Áhersla verður lögð á endurnýjun teiga og lokun/lagfæringu á sandglompum. Byrjað var á stækkun teigs á 3. braut síðastliðið haust þar sem gulur, blár og rauður teigur verða sameinaðir á einu teigstæði. Þessi framkvæmd er á loka stigi og verður kláruð um leið og frost fer úr jarðvegi.
Aðrir teigar sem teknir verða til endurbóta á vordögum eru á 12. og 13. braut. Þar verða rauðu og bláu teigarnir endurbyggðir og um leið aðskildir, rauðir teigar færðir framar. Búið er að aka efni að teigstæðum á 13. braut. Í haust verða svo hvítir teigar á 2. og 3. braut og rauði teigurinn á 17. braut endurgerðir ásamt nýjum bláum teig á 17. braut sem staðsettur verður mitt á milli rauða og gula.
Á Garðavelli eru 77 sandglompur, 47 við flatir og 30 á brautum. Undanfarin ár hefur tveimur glompum verið lokað. Það er samhljóma álit vallarnefndar og stjórnar GL að ganga lengra í að fækka sandglompum á Garðavelli, færa sumar til og lagfæra aðrar.
Það er þekkt staðreynd að samdglompur eru kostnaðarsamur þáttur í viðhaldi golfvalla. Þó er ein helsta ástæða fyrir lokun glompna, eða tilfærslu þeirra á Garðavelli, nálægð þeirra við púttflatir. Staðsetningin veldur sandaustri inn á flatir og skemmdum á grassverði og slátturvélum auk þess sem sandurinn truflar púttlínuna.
Þeim glompum sem verður lokað nú á vordögum eru; glompa vinstra megin við 3. flöt, glompur hægra og vinstra megin við 10. flöt og glompa við hól framan við 13. flöt. Í haust verður svo fyllt í glompu hægra megin við 12. flöt, aftan vð 13. flöt og framan við 15. flöt. Samhliða þessum haustframvæmdum á glompum er stefnt að lagfæringum á forflötum við þessar flatir.
Í lok sumars er ætlunin að fara í endurbætur á æfingapúttflötinni við golfskálann ef fjárhagur leyfir.
Dagana 16. – 19. mars voru hreinsaðir skurðir aftan við 5. flöt, milli 10. og 13. brautar og aftan við 3. flöt meðfram vegi. Mikið sef og botnfall hefur safnast fyrir í skurðum og er mikilvægt að hreinsa þá til að viðhalda framrælsu golfvallarins. Þróttur ehf. og Skóflan ehf. hafa unnið að skurðahreinsuninni.
Fimmtudaginn 19. mars voru þrettán flatir á Garðavelli sandaðar. Aðstæður voru góðar til að framkvæma verkið; jarðvegur frosinn en grasið þó ekki og lítill sem engin snjór á flestum flötum. Þannig var hægt að fara um flatirnar með tæki án þess að valda skemmdum. Söndun nú hjálpar við að auka hita í yfirborði jarðvegsins þegar sól skín og stuðla þannig að grasvexti fyrr en ella í vor.
Eini almennilegi snjóskaflinn á Garðavelli hefur verið fyrir faman æfingaskýlið. Nú er búið að moka hann í burtu svo hægt verður að nota æfingaskýlið fljótlega til æfinga en huga þó að fjarlægð á milli manna og hafa í huga hugsanlega snertifleti.
Guðni Helgason, starfsmaður GL , hefur unnið að kappi við vélaviðhald í vetur. Áhersla hefur verið lögð á viðhald og endurbætur á slátturkeflum, sem tími var kominn á, auk annars viðhalds tækja. Slátturvélarnar eru því í góðu standi og tilbúnar fyrir vorsláttinn.