Kæru félagsmenn GL,
Garðavöllur var opnaður í gær 4. maí, af 60 sjálfboðaliðum sem mættu til leiks og léku 18 holur við frábærar aðstæður. Óhætt er að segja að Garðavöllur komi virkilega vel undan vetri með grænum flötum, teigum sem endurspeglaðist í mörgum ánægðum kylfingum er röltu um Garðavöll í gærdag. Til samanburðar má rifja það upp að völlurinn okkar var opnaður þann 11. maí í fyrra vor, þá enn með umtalsverðu frosti í jörðu og tilheyrandi vandræðum.
Það hefur verið mikill kraftur í starfinu okkar síðustu mánuði, alveg sama hvar er litið. Mig langar að nefna ánægjulega framþróun í ástundun golfherma hér í okkar heimabyggð. Tveir einkareknir aðilar opnuðu einmitt glæsilega aðstöðu fyrr í vetur til þess að mæta aukinni eftirspurn kylfinga á Akranesi.
Stöðugur vöxtur hefur verið er í árgjöldum, nýliðun sem og fjaraðild félagsins. Mikilvægt starf er einnig unnið í fjölmörgum nefndum á vegum GL en þar má nefna vel mannaðar sveitir vallanefndar, barna og unglinganefndar, mótanefndar sem og kvennanefndar. Í því samhengi má nefna ánægjulega staðreynd að hlutfallslegur vöxtur hefur einmitt verið einna mestur hjá kvenkylfingum undanfarin árin innan raða GL.
Af starfsmannamálum félagsins er það helst að frétta að GL réði Árna Þór Árnason í starf aðstoðarvallarstjóra í byrjun árs og bætist hann þá við hið frábæra teymi okkar Guðna Steinars og Einars Gests. Samhliða því að undirbúa Garðavöll fyrir komandi tímabil, hafa drengirnir einmitt unnið hörðum höndum að því að koma niður stofnæð fyrir vatnsflæði að vökvunarkerfi út að 4. og 11. grínum Garðavallar. Frábær og spennandi vinna sem mun verða algjör bylting í meðhöndlun Garðavallar á komandi árum.
Nýr íþróttastjóri, Birkir Þór Baldursson tók einnig til starfa hjá klúbbnum fyrr á haustmánuðum og hefur komið af krafti inn í barna og unglingastarf félagsins. Birkir fór einmitt með vaska sveit yngri kylfinga sem og foreldra í vel heppnaða æfingaferð til Spánar nú á vormánuðum.
Stjórn GL og Rakel Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri GL hafa einnig unnið hörðum höndum að því síðustu vikur og mánuði að efla rekstrargrundvöll félagsins með því að leita til lögaðila hér í heimabyggð í von um samstarf milli aðila. Óhætt er að segja að viðtökurnar hafi verið framar vonum sem hefur endurspeglast í tilkynningu fjölda nýrra samstarfsaðila sem og endurnýjun á eldri samningum. Ég vil á þessum vettvangi þakka sömu aðilum fyrir frábæra vinnu sem og viðtökur – afraksturinn er félaginu okkar verulega mikilvægur.
Að lokum vil ég koma inn á virkilega spennandi verkefni er við lögðum fyrir bæjarráð Akraneskaupstaðar þann 26. apríl síðastliðinn. Erindið fólst í því að kynna afrakstur vinnu sem stjórn GL ásamt vallarnefnd, hefur unnið að með golfvallarhönnuðinum Edwin Roald, undanfarin tvö ár. Hugmyndavinnan fól í sér annars vegar að komið verði á gildandi samning milli GL og sveitarfélags innan svæði deiliskipulags Garðavallar og hins vegar að sömu aðilar hugsi stórt og til framtíðar með möguleikann á stækkun Garðavallar úr 18 holum í 27 holur. Þar sjáum við gríðarleg tækifæri í mótun fjölnota útivistarsvæðis sem gæti í framtíðinni nýst öllum íbúum Akraneskaupstaðar.
Undirritaður sem verið virkur meðlimur í starfi GL frá 10 ára aldri hefur sjaldan verið jafn spenntur fyrir komandi golfsumri. Með vor í lofti og hækkandi sól óska ég öllum meðlimum GL sem og öðrum gestum Garðavallar gleðilegs golfsumars. Umfram allt, njótið leiksins og góða skemmtun.
Golfkveðja,
Hróðmar Halldórsson, formaður GL.