Kvenkylfingar úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi sigruðu í sveitakeppni Vesturlandsmóts kvenna í golfi sem fram fór í Stykkishólmi nú í lok ágúst. Þátttökurétt áttu konur úr klúbbum af Vesturlandi; Golfklúbbnum Leyni á Akranesi, Golfklúbbnum Mostra í Stykkishólmi, Golfklúbbnum Vestarr í Grundarfirði og Golfklúbbi Borgarness. Vesturlandsmót kvenna er sveitakeppni klúbbanna og er haldið ár hvert þar sem klúbbarnir skiptast á að halda mótið hverju sinni.

Keppt var bæði í höggleik og punktakeppni og voru Leyniskonur sigursælar í báðum flokkum. Sigurvegari í höggleik án forgjafar var Arna Magnúsdóttir sem vann í leiðinni titilinn Vesturlandsmeistari 2021. Í öðru sæti varð Helga Rún Guðmundsdóttir og í því þriðja var Vala María Sturludóttir, allar Leyniskonur. Í punktakeppninni skipuðu Leyniskonur sér einnig í efstu sætin og unnu þar af leiðandi sveitakeppnina. Sveitina skipuðu Arna Magnúsdóttir, Helga Rún Guðmundsdóttir, Rakel Óskarsdóttir og Ellen Blumenstein. Golfklúbburinn Leynir óskar Leyniskonum til hamingju frábæran árangur.