Golfklúbburinn Leynir og Valdís Þóra Jónsdóttir hafa undirritað samning þess efnis að frá og með 1. nóvember 2020 taki hún við sem Íþróttastjóri GL. Félagsmenn þekkja vel til Valdísar Þóru þar sem Leynir er hennar uppeldisfélag og hún keppt undir merkjum þess alla tíð.
Valdís Þóra er afrekskylfingur, margfaldur Íslandsmeistari í golfi og íþróttamaður Akraness til margra ára. Hún hefur því mikið fram að færa þegar kemur að því að miðla þekkingu sinni og reynslu í golfi.
Valdís Þóra mun sjá um þjálfun barna- , unglinga- og afreksstarf félagsins ásamt því að sinna almennum félagsmönnum GL. Nýr Íþróttastjóri hefur skýra framtíðarsýn á starfið og er tilbúin að gera gott starf enn betra með það að markmiði að koma iðkendum sínum í fremstu röð.
Það var því mikill gleðidagur í dag þegar Rakel Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri GL, og Valdís Þóra undirrituðu samning þeirra á milli. Vertu hjartanlega velkomin til starfa Valdís Þóra !