Valdís Þóra Jónsdóttir og Haraldur Franklín Magnús úr Golfklúbbi Reykjavíkur voru valinn kylfingar ársins 2018 af Golfsambandi Íslands.

Þetta er í 21. skipti þar sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ, kona og karl. Þetta er í annað sinn sem þau Valdís Þóra og Haraldur Franklín hljóta þessa útnefningu. 

Valdís Þóra lék á sínu öðru tímabili í röð á LET Evrópumótaröðinni, sterkustu mótaröð í Evrópu hjá atvinnukylfingum í kvennaflokki. Valdís Þóra endaði í 38. sæti á stigalistanum sem er besti árangur hennar á LET. Valdís komst í gegnum niðurskurðinn á fimm mótum af alls 12 sem hún tók þátt í á LET.

Besti árangur Valdísar var þriðja sætið á LET-móti í Ástralíu – sem er jafnframt besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á atvinnumóti í golfi í efsta styrkleikaflokki.

Valdís Þóra lék á þremur mótum á LET Access atvinnumótaröðinni, sem er næststerkasta atvinnumótaröð í Evrópu.

Valdís tryggði sér snemma á tímabilinu áframhaldandi keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni.

Valdís Þóra var í fjögurra manna liði Íslands sem sigraði á Evrópumótinu í blandaðri liðakeppni atvinnukylfinga á meistaramóti Evrópu í Skotlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi keppni fer fram hjá atvinnukylfingum.