Aðalfundur Golfklúbbsins Leynis var haldinn í hátíðarsal ÍA þriðjudaginn 11. desember 2018.

Formaður fór yfir skýrslu og starf klúbbsins ásamt reikningum klúbbsins og framkvæmdastjóri kynnti fjárhags- og rekstraráætlun ársins 2019.

Rekstrartekjur á árinu voru 78.7 milljónir samanborið við 71.6 milljónir árið 2017.  Rekstrargjöld voru 87.9 milljónir samanborið við tæpar 76 milljónir árið 2017.  Rekstrarafkoma var neikvæð um rúmar 9 mkr. og heildartap árins að teknu tilliti til fyrninga og fjármunagjalda var tæpar 11 mkr.

Í skýrslu stjórnar kom fram að þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði og leiðinlegt veður fyrri hluta sumars skartaði Garðavöllur sýnu fegursta og var umtalað í hversu góðu ástandi völlurinn var.  Fjölgun var í hópi félagsmanna sem er mikið ánægjuefni en félagsmenn telja tæplega 500 manns. Spiluðum hringjum fækkaði milli ára en spilaðir voru 14.100 hringir samanborið við 16.235 hringi árið 2017.  Einnig kom fram að ný frístundamiðstöð mun án efa styðja vel við rekstur Leynis og gjörbreyta rekstrarumhverfi klúbbsins.

Í máli framkvæmdastjóra og í kynningu á fjárhags- og rekstraráætlun fyrir árið 2019 kom fram að stjórn Leynis hefur skoðað og ígrundað vel stöðu rekstrar og nú þarf að blása í öll segl og snú við taprekstri síðustu tveggja ára. Í áætlunum fyrir rekstrartekjur er gert ráð fyrir að félagsgjöld hækki um 5-7.5% og aukin sókn verði í aðrar tekjur s.s. framlög og styrki og aðrar þær tekjur sem hægt er að búa til á vellinum.  Að sama skapi gera áætlanir rekstrargjalda ráð fyrir almennu aðhaldi og niðurskurði á völdum stöðum í rekstrinum.  Hækkun á félagsgjöldum var lögð fyrir fundinn til samþykktar og fékk samþykki. Gjaldskrá verður birt innan skamms á heimasíðu Leynis þegar innheimta árgjalda hefst. 

Stjórn Leynis var endurkjörin en hana skipa Þórður Emil Ólafsson formaður, Berglind Helga Jóhannsdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir, Eiríkur Jónsson, Hörður Kári Jóhannesson og Heimir Bergmann Hauksson.

Viðurkenningar voru að venju veittar.  Guðmundar og Óðinsbikarinn, var veittur Þórði Elíassyni fyrir gott og óeigingjarnt starf í þágu Leynis undanfarna áratugi en Þórður hefur verið félagsmaður Leynis í hartnær 30 ár.  Bára Valdís Ármannsdóttir fékk háttvísisverðlaun GSÍ en þau eru veitt ár hvert þeim kylfingi undir 18 ára aldri sem endurspeglar hvað mest þá eiginleika sem Leynir vill sjá í afreksefnaunglingum sínum.   Árni Pétur Reynisson fékk viðurkenningu fyrir mestu forgjafarlækkun hjá Leyni en Árni Pétur lækkaði úr 54,0 í 19.2 á árinu 2018.  Óskar Úlfar Kristófersson fékk viðurkenningu fyrir flesta spilaða hringi á árinu en þeir töldu um 88 frá opnun vallar til lokunar nú í haust.

Framkvæmdastjóri fór yfir stöðu framkvæmda við nýja frístundamiðstöð.  Í máli hans kom fram að verkefnið hafi gengið vel í alla staði og góð samvinna verið með þeim verktökum sem völdust í verkefnið.  Skóflustunga var tekinn 19.janúar 2018 og því ekki nema rétt um 11 mánuðir nú þegar flutningar í hluta húsnæðisins standa yfir í skrifstofu- og afgreiðsluhluta þess og 1.áfanga verksins. Verklok og um leið lok 2.áfanga eru áætluð 31.mars 2019 og mikil tilhlökkun hjá öllum hlutaðeigandi.

Stjórn Leynis fór yfir stefnumótun frá árinu 2012 og hvað hefur áunnist frá þeim tíma.  Einnig var farið yfir stefnumótun sem gerð var í nóvember 2018 og þau áhersluatriði sem þar komu fram.

Fulltrúi ÍA kvaddi sér máls og fór yfir gott samstarf við Leyni þetta rekstrarárið og önnur áhersluatriði er varðar íþróttir barna og unglinga.

Aðalfundur hófst kl. 19:30 og mættu um 30 félagsmenn og gestir.  Fundi var lokið um kl. 21:30.