Aðalfundur Golfklúbbsins Leynis árið 2024 fór fram í gær, miðvikudaginn 27. nóvember að Garðavöllum.
Stjórn og framkvæmdastjóri þakka fyrir góðan fund og var virkilega ánægjulegt að sjá hversu margir sáu sér fært um að mæta.
Ákveðin breyting varð á stjórn klúbbsins en Freydís Bjarnadóttir, Ella María Gunnarsdóttir og Ísak Örn Elvarsson gáfu ekki kost á sér til endurkjörs. Hróðmar Halldórsson verður áfram formaður, Óli Björgvin Jónsson, Ruth Einarsdóttir halda áfram í stjórn, Theodór Hervarsson, Elísabet Sæmundsdóttir og Jóhannes Elíasson koma ný inn. Golfklúbburinn Leynir óskar nýju stjórnarfólki til hamingju með kjörið og þakkar fráfarandi stjórnarfólki fyrir sitt góða framlag á liðnum árum.
Miklar umræður um skipulagsmál golfvallarins sem og möguleika Leynis á að stækka Garðavöll í 27 holur áttu sér stað á fundinum undir liðnum skýrsla stjórnar.
Sigurður Elvar Þórólfsson, félagsmaður Leynis, lagði til að aðalfundur myndi senda eftirfarandi ályktun til bæjarstjórnar:
„Félagsfólk í Golfklúbbnum Leyni skorar á bæjaryfirvöld á Akranesi að gerður verður formlegur lóðaleigusamningur um núverandi golfvallarsvæði Golfklúbbsins Leynis.
Slíkur samningur hefur ekki fengist raungerður þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þess efnis af hálfu klúbbsins.
Félagsfólk fjölmennasta íþróttafélags Akraness krefst þess að bæjaryfirvöld taki þetta mál til formlegrar afgreiðslu án frekari tafa.“
Forseti bæjarstjórnar Valgarður Lyngdal Jónsson tók til máls og fór yfir stöðu málanna tveggja hjá Akraneskaupstað. Valgarður tjáði félagsmönnum Leynis um að mikill vilji væri fyrir því að vinna málið áfram með klúbbnum og að sú vinna ætti að geta hafist strax á nýju ári. Stjórn þakkar forseta bæjarstjórnar fyrir sitt innlegg í umræðuna og er tilbúin og full tilhlökkunar fyrir samstarfinu.
Ályktun Sigurðar Elvars var samþykkt af fundargestum.
Á aðalfundi var ársreikningur Leynis fyrir starfsárið 2024 samþykktur. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði og afskriftir skilaði 28.403.120 kr. í afgang.
Þá voru árgjöld og fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 lögð fram og samþykkt. Fyrirkomulag innheimtu árgjalda verður kynnt félagsmönnum á næstu dögum.
Árið 2025 fagnar Leynir 60 ára afmæli og í tilefni þess var nýtt afmælis lógó kynnt á fundinum sem fékk mjög góðar viðtökur fundargesta. Stjórn Leynis fékk hönnuðinn Bjarki Lúðvíksson með sér í þetta verkefni og er stjórn spennt fyrir því að kynna félagsmönnum og öðrum áhugasömum afraksturinn.