79. ársþing ÍA var haldið hátíðlega þriðjudaginn 25. apríl í Tónbergi. Golfklúbburinn Leynir átti þar þrjá frábæra félagsmenn sem sæmdir voru bandalagsmerki ÍA. Stjórn GL óskar Reyni Sigurbjörnssyni, Jóhanni Þór Sigurðssyni og Þórði Emil Ólafssyni innilega til hamingju með nafnbótina og heiðursviðurkenninguna. Á myndina vantar Jóhann Þór en hann gat því miður ekki verið viðstaddur ársþingið.
Reynir Sigurbjörnsson
Reynir Sigurbjörnsson hefur verið meðlimur í Golfklúbbnum Leyni til frá árinu 1986 og verið virkur í almennum golfleik og keppnisgolfi. Hefur spilað í sveitakeppnum, ófáum Meistaramótum sem og öðru mótum, bæði innanfélags og utan. Reyni hefur verið einstaklega umhugað um ástand og umhirðu Garðavallar, starfaði sem vallarstjóri árin 1994 og 1995 og hefur í áranna rás lagt fram mörg hundruð klukkustundir í sjálfboðavinnu fyrir GL. Reynir átti t.a.m. sæti í vallarnefnd klúbbsins á árunum 2020 – 2022, en lungað af hans sjálfboðaliðastarfi hefur hann innt af hendi sem almennur félagsmaður í klúbbnum. Reynir hefur alltaf verið boðinn og búinn til að rétta fram hjálparhönd, er af bændum kominn og hefur því gott auga og góðan skilning á öllu því sem snýr að gróðri og umhirðu hans.
Reynir Sigurbjörnsson hefur verið ómetanlegur félagsmaður og mun bera bandalagsmerki Íþróttabandalags Akraness með sóma fyrir sitt framlag til handa Golfklúbbsins Leynis.
Jóhann Þór Sigurðsson
Jóhann Þór Sigurðsson hefur verið meðlimur í Golfklúbbnum Leyni frá því 1988. Hann er öflugur kylfingur sem hefur ófáa fjöruna sopið í keppnisgolfi, tekið þátt í fjölda sveitakeppna sem og mótum á vegum GL – þar standa Meistaramótin upp úr. Jóhann Þór hefur einokað sigur í ákveðnum keppnisflokkum Meistaramóta um margra ára skeið. Hann hefur verið meðlimur í vallarnefnd og hefur látið mikið til sín taka i verkefnum á Garðavelli. Jóhann Þór er með betri tækjamönnum sem finnast og hefur Golfklúbburinn Leynir notið hæfileika hans sem vélamanns í fjölmörgum verkefnum, ekki síst þar sem þörf er á liprum gröfumanni. Hefur því verið fleygt að hann sé svo lipur gröfumaður að líklega gæti hann framkvæmt tannviðgerðir með gröfunni.
Í þeim fjölmörgu sjálfboðaliðsstörfum sem – eru eitt af hryggjarstykkjum í starfi Golfklúbbsins Leynis, hefur Jóhann Þór verið einn af lykilmönnum starfsins – Jóhann Þór Sigurðsson er ein af styrkustu stoðum þessarar sjálfboðavinnu og er einstaklega vel að því kominn að bera bandalagsmerki Íþróttabandalags Akraness.
Þórður Emil Ólafsson
Þórður Emil Ólafsson hefur komið að mörgum þáttum í starfi Golfklúbbsins Leynis og hefur til margra ára verið öflugur félagsmaður og sjálfboðaliði. Frá unga aldri hefur Þórður Emil vanið komu sína á Garðavöll og þekkir því mjög vel allt umhverfi hans og aðstæður. Þórður Emil sat í stjórn Leynis til margra ára og þar af var hann formaður í 9 ár. Þórður Emil var og er enn góður kylfingur og hefur unnið til ýmissa verðlauna í gegnum árin og keppt um ára bil fyrir hönd Golfklúbbsins Leynis í sveitakeppni golfklúbba með góðum árangri. Þórður Emil tók þátt í landsliðsverkefnum á vegum Golfsambands Íslands á yngri árum. Árið 1997 varð Þórður Emil Íslandsmeistari í golf og um leið gerður að heiðursfélaga Golfklúbbsins Leynis. Þá hefur Þórður Emil komið á fót og staðið m.a. fyrir Opna Hjóna og Para golfmóti sem haldið er ár hvert á Garðavelli í byrjun sumars. Það er sannur heiður að Golfklúbburinn Leynir tilnefni Þórð Emil Ólafsson til bandalagsmerki Íþróttabandalags Akraness, hann er svo sannarlega vel að því kominn.