Kæru félagar.

Nú er að baki vetur sem hefur um margt verið ólíkur því sem við eigum að venjast á þessu landshorni. Miklar frosthörkur hafa legið yfir okkur meira og minna frá  því í desember og um tíma var útlit fyrir að umtalsverð seinkun yrði á opnum Garðavallar af þeim sökum. Þegar apríl leit dagsins ljós var þó frostið búið að losa klóna – engu að síður ljóst að aprílmánuður þyrfti að vera hraustlega í betri kantinum veðurfarslega til að raunhæft væri að opna völlinn um mánaðamótin apríl / maí, sem gjarnan er stefnt að.  Svo dæmi sé tekið um fordæmalitlar frosthörkur, þá opnuðust frostsprungur á 3 brautum vallarins og frostið hefur hlaupið á að giska 60 cm niður í jörð  – eitthvað sem eldri menn (kannski þeir elstu) hafa ekki séð áður.

Einar Gestur og Guðni hafa farið hamförum í vetur með tiltekt á úr sér sprottnum og óaðlaðandi viðjum út um víðan völl, ásamt mörgum smærri verkum sem munu gera ásýnd vallarins betri svo eftir verður tekið – hafa náð að gera ótrúlega hluti í þessum krefjandi frosthörkum. Það hefur augljóslega raungerst virði þess að hafa vallarstjóra í fullu starfi, ekki bara metið út frá gæðum vallarins í fyrrasumar, heldur einnig hvað hægt er að nýta veturinn til góðra verka – svo margt sem bendir til að Einar Gestur og Guðni séu þannig teymi að þeir jafnist á við 3-4 starfsmenn þegar þeir leggjast á eitt.

Hlynur og hans fólk á „Nítjánda / Bistro & Grill“ eru komin á fullt með að undirbúa veitingaþjónustuna sem vonandi verður vel nýtt af félagsmönnum, öðrum gestum Garðavallar og bæjarbúum almennt á komandi sumri.

Valdís Þóra hefur viðhaldið sveiflunni hjá fjölda kylfinga í vetur – sem mun skila ánægju, yndisauka og betri árangri á golfvellinum til þeirra kylfinga sem hafa nýtt sér þau námskeið sem í boði hafa verið.

Rakel hefur sem fyrr haldið af festu um stjórnartaumana, hefur viðhaldið fyrirmyndar rekstri og haldið aga á meðlimum stjórnar.

Nokkuð hefur verið bætt í tækjakost klúbbsins – það sem kylfingar munu verða mest varir við er ný boltavél og búnaður henni tengdur. Einnig hefur verið fjárfest í  spreybíl til dreifingu áburðar og vaxtarstjórnunarefna, sem og grunnbúnaði og stjórnkerfi fyrir vökvunarkerfi.

Þá er bara að vona að komandi vikur verði okkur veðurfarslega hagsælar svo opnun Garðavallar geti orðið sem næst komandi mánaðamótum – einnig vonast ég til að sjá sem flestar vinnufúsar hendur þegar auglýstur verður vinnudagur í aðdraganda opnunar.

Göngum vel um Garðavöll hér eftir sem hingað til, glæðum klúbbstarfið lífi – og síðast enn ekki síst: Höfum gaman af því að vera til og spila golf.

Hlakka til að sjá ykkur á Garðavelli í sumar.

O. Pétur Ottesen