Kæru félagar.

Eftir sviptingakennd veður á umliðnum vetri er full ástæða til að horfa til sumars með eftirvæntingu. Þó tilhugsun um golfiðkun utandyra hafi ekki farið að ásækja mann fyrr en viku af apríl, hefur engu að síður verið í nógu að snúast hjá stjórn og starfsmönnum Leynis við undirbúning fyrir komandi vertíð. Auk þess hafa vatnsveður með tilheyrandi lekavandamálum haldið starfsmönnum óþægilega mikið á tánum.

Talsverð breyting verður á þeirri umgjörð sem mæta mun kylfingum á Garðavelli á komandi sumri. Garðaveitingar (Galító), sem annast hafa veitingasölu á umliðnum árum ákváðu að segja samningi sínum lausum og feta nýjar slóðir. Við tók tímafrekt ferli við leit að nýjum rekstraraðila og var það ekki fyrr en í mars lok að þau mál fundu sér endanlegan farveg og leystust með farsælum hætti. Samið hefur verið við Hlyn Guðmundsson um reksturinn undir nafninu „Nítjánda / Bistro & Grill“ og bjóðum við hann velkominn um borð. Bindum við sterkar vonir við að þjónustan verði félagsmönnum, bæjarbúum og gestum til ánægju og yndisauka.

Þessu til viðbótar hefur verið gengið frá ráðningu vallarstjóra í fullt starf. Til starfans var Einar Gestur Jónsson valinn. Einar Gestur er menntaður grasvallafræðingur og hefur víðtæka reynslu af rekstri og umhirðu golfvalla. Við eru þess fullviss að það sé mikið gæfuspor að hafa fengið Einar Gest til starfa og að hann ásamt vallarnefnd og vaskri sveit golfvallastarfsmanna geri Garðavöll, sem er að öllu jöfnu með betri völlum landsins –  enn og betri.

Valdís Þóra hefur verið iðin við að halda sveiflunni á réttum stað – eða jafnvel gera hana betri hjá fjölda kylfinga í vetur og verður gaman að sjá hvernig kylfingar koma undan kófinu og vetrinum. Rakel hefur haldið af festu um stjórnartaumana og Guðni séð til að öll okkar tæki eru sem ný sem fyrr.

Í vetur hefur einnig verið bætt nokkuð við tækjakost klúbbsins. Golfbílum til útleigu hefur verið fjölgað úr þremur í fimm, keyptir voru tveir rafmagnsbílar fyrir vallarstarfsmenn og búið að lagfæra aðstöðu í æfingahúsnæði til muna svo eitthvað sé nefnt.

Þá er bara að hlaða í gleði og tilhlökkun fyrir komandi sumri og biðla til veðurguðanna um góða tíð – vonandi fáum við margar hjálplegar hendur þegar við verðum með vinudaga í aðdraganda opnunar. Göngum vel um Garðavöll sem endranær, glæðum klúbbstarfið lífi –  það er á endanum í okkar höndum að það sé gaman að vera til og spila golf.

Hlakka til að sjá ykkur á Garðavelli í sumar.

Pétur Ottesen