Golfklúbburinn Leynir og veitingastaðurinn Galito hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf er tekur til reksturs veitinga og þjónustu í nýrri frístundamiðstöð.  Galito mun reka starfssemina í frístundamiðstöðinni samhliða rekstri veitingastaðar við Stillholt og mun opna formlega þegar Garðavöllur opnar golfvöllinn sem má áætla að verði mánaðamótin apríl/maí. 

Golfklúbburinn Leynir og veitingastaðurinn Galito hafa undanfarin ár átt farsælt og gott samstarf er varðar veislur og þjónustu við Garðavöll.  „Það er mikil ánægja innan stjórnar golfklúbbsins með þennan samning og væntanlegt samstarf um rekstur frístundamiðstöðvar og mikil tækifæri munu felast með nýju húsi og þeirri aðstöðu sem það hefur upp á að bjóða“ að sögn Guðmundar Sigvaldasonar framkvæmdastjóra Leynis. 

„Að sögn Hilmars Ólafssonar eiganda Galito mun þessi nýjaaðstaða og rekstur í frístundamiðstöðinni falla vel með rekstri veitingastaðarins Galito en þjónusta við hópa, fyrirtæki og aðra gesti Garðavallar verður aukinn til muna með þessu samstarfi við Leyni. Veislusalur frístundamiðstöðvarinnar tekur allt að 200 manns í sæti og býður upp á mikla möguleika er varðar viðburði ýmiskonar, námskeið, ráðstefnur,brúðkaup, afmæli, fermingar svo eitthvað sé upptalið“.

Framkvæmdir ganga vel á Garðavelli og eru rétt um 12 mánuðir síðan skóflustunga var tekinn að þessu glæsilega mannvirki. Golfklúbburinn flutti sína starfssemi inn í hluta hússins um miðjan desember síðastliðinn er skrifstofuhluti og inniæfingaaðstaða var tekinn í notkun. Áætlað er að framkvæmdum við húsið verði lokið í byrjun apríl næstkomandi og það verði formlega tekið í notkun í framhaldinu.  Mikið af bókunum í veislusalinn eru nú þegar staðfestar og skemmtilegir tímar framundan á Garðavelli.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Hilmar Ólafsson og Sigurjón Inga Úlfarsson eigendur Galito ásamt Guðmundi Sigvaldasyni framkvæmdastjóra Leynis við undirskrift um samstarfið.